Frjálst hopp fyrir 4 ára og eldri
Skopp er trampólíngarður þar sem börn á öllum aldri ærslast og skemmta sér. Líkt og með skíðabrekkur, íþróttaæfingar eða sambærilega afþreyingu þá geta orðið óhöpp. Okkar hlutverk sem rekstraraðila er að lágmarka hættuna á óhöppum og að hámarka öryggi allra viðskiptavina.
Seint á síðasta ári breyttum við aldurstakmarkinu í garðinn. Reynsla okkar sýndi að þegar yngri börn hoppa innan um eldri og þyngri börn eykst hættan á óhöppum, sérstaklega hjá yngsta hópnum, þ.e. 3 ára og yngri. Við ákváðum að gera stóra breytingu og miða við 6 ára (grunnskólaaldur) í frjálsu hoppi. Yngri börn máttu aðeins hoppa í sérstökum krakkatímum. Þetta stóra skref var tekið til að girða fyrir áhættu og ætluðum við að meta árangurinn og endurskoða aldurstakmarkið aftur síðar í krafti reynslu. Frá því að þessar breytingar komu til framkvæmda hafa fá teljandi óhöpp átt sér stað í garðinum og erum við ánægð með árangurinn.
Samhliða þessum breytingum þá hönnuðum við og settum upp glænýtt barnasvæði við hlið veitingasölunnar með skemmtilegum og þroskandi leikföngum og tækjum fyrir yngri börnin. Það svæði má segja að hentaði best börnum á aldrinum 0-3 ára.
Þessi breyting kom sér illa fyrir þær fjölskyldur sem eru með börn á dreifðum aldri og nýttu þjónustu Skopp fyrir alla fjölskylduna. Við höfum átt ótal samtöl við foreldra og viðskiptavini á síðustu vikum og mánuðum og útskýrt okkar markmið, að öryggið sé í forgangi, en á sama tíma vakið athygli á því að við erum að læra á leiðinni og ætlum okkur að aðlaga okkur sem best byggt á reynslu og þekkingu. Í ljósi ofangreinds hefur nú verið ákveðið að taka eitt skref til baka hvað aldurstakmark varðar og miða lágmarksaldur í frjálsu hoppi við 4 ára (afmælisdagur barns gildir), sem er nær því sem tíðkast í sambærilegum görðum í löndunum í kringum okkur. Krakkatímarnir halda vissulega áfram í óbreyttri mynd fyrir aldurinn 0-5 ára en framvegis mega börn sem eru orðin 4 ára hoppa í frjálsu hoppi (4-5 ára í fylgd fullorðinna). Við viljum að það komi skýrt fram að um lifandi lærdómskúrfu er að ræða og ef að við verðum vör við að tíðni óhappa aukist við þessa breytingu þá einfaldlega tökum við skref til baka aftur.
Nú hefur opnað BarnaSkopp svæði fyrir 0-5 ára svo að yngstu börnin geti hoppað utan krakkatíma í góðu öryggi, á minna trampólínsvæði!
Með þessu trúum við að við séum að auka þjónustu við fjölskyldur með börn á dreifðum aldri en á sama tíma að stíga varlega til jarðar.
Við hlökkum til að skoppa með ykkur í sumar!